Kveðja frá formanni Hollvinasamtaka Heilsustofnunar, Ólafi Gränz

Á afmælisárinu okkar þegar Hollvinasamtökin fagna 10 árum, stefnum við hátt og snúum bökum saman. Góður árangur hefur verið af starfi okkar og framlögum undanfarin ár. Ánægjulegt afmælisár er liðið og nú er að baki rúmlega tíu ára farsælt starf Hollvina (stofndagur er 24.júlí 2005). Af því tilefni munu allir Hollvinir fá sent með greiðsluseðli vegna árgjalda boðskort fyrir tvo í mat í Matsal stofnunarinnar, ásamt ókeypis aðgangi að Sundlaug, sauna og pottum fyrir tvo.

Sannarlega hlýlegt framlag frá stjórn Heilsustofnunar, sem sýnir vel viðurkenningu, þakklæti til Hollvina og samstöðu.

Heilsustofnun mun áfram leggja Samtökunum til starfsmann í hlutastarfi, Elínu Hörpu Johannsdóttur gjaldkera HNLFi til að annast yfirumsjón með félagatali, skráningu og útsendingu greiðsluseðla. Hefur starf hennar þegar skilað verulegum ávinningi ,sem við þökkum.

Margrét Grímsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsustofnun mun áfram annast stöðu fjármálastjóra samtakanna. Hefur hún sinnt því undanfarið ár af trúmennsku og alúð.

Haraldur Erlendsson forstjóri og yfirlæknir og Ingi þór Jónsson markaðsstjóri hafa staðið vel með samtökunum og verið sérlega traustir og góðir bakhjarlar.

Félagar eru nú orðnir á áttunda hundrað og fer hratt fjölgandi. Sérframlög einstaklinga og fyrirtækja ásamt tekjum af Bingói hafa verið veruleg og góð viðbót við félagsgjöld.

Það er von mín og bæn að nú eftir góðan Aðalfund 16. marz s.l. og tilkomu „nýrra krafta“ í stjórn þá sjáum við innan skamms félagatöluna verða komna í eitt þúsund félaga. Eftir aðalfundinn gengu nokkrir fundargestir til liðs við Hollvinasamtökin og skráðu sig sem félaga.

Ég sendi öllum samherjum, vinum og velunnurum Hollvinasamtakanna,ljúfar kveðjur með von um farsæld og frið á komandi tímum.

olafur granzÓlafur Gränz,
formaður Hollvinasamtaka Heilsustofnunar