Hollvinir eru uppbyggjandi vinir

Hollvinasamtök Heilsustofnunar NLFÍ eru félagsskapur fólks sem vinnur að fjáröflun til að efla og stuðla að nýjungum í starfsemi Heilsustofnunr NLFÍ. Síðastliðin ár hafa verið keypt fyrir framlög Hollvina allt frá dýrum lækningatækjum til ódýrra púsluspila. Einnig er fjárfest í nýjum heilsuræktartækjum og húsbúnaði í Hollvinastofuna sem kalla má félagsaðstöðu dvalargesta. Það má því segja að við Hollvinir séum uppbyggjandi félagsskapur.

Helsta tekjulind Hollvinasamtakanna eru félagsgjöld, og þar sannast hið fornkveðna að margt smátt gerir eitt stórt. Árgjaldið er einungis 3000 kr. á ári en 500 greiðandi félagsmenn skila 1,5 milljón króna á ári. Markmiðið er að hafa yfir 1000 greiðandi félagsmenn þar sem framundan er heilmikil endurnýjun á húsbúnaði og lækningatækjum.

Einnig er leitað eftir fjárstuðningi til fyrirtækja og verður það gert í auknum mæli á komandi misserum. Það er með Heilsustofnun eins og aðrar heilbrigðisstofnanir að tekjur frá Sjúkratryggingum duga ekki fyrir nauðsynlegum endurbótum og nýjungum. Því þarf viðbótarfjármagn frá þeim sem eru vinveittir stofnuninni og er þá nærtækast að leita til dvalargesta sem hafa notið gagns af starfseminni.

Stjórn skipa valinkunnur hópur fólks sem á það sammerkt að hafa dvalið sér til heilsubótar á Heilsustofnun og finnst að þau hafi gjöf að gjalda. Eru dvalargestur hvattir til að koma hugmyndum að því sem betur má fara á framfæri við stjórn en hugmyndakassar hanga uppi við matsal og hjúkrunarvakt.

Munum að góð heilsa er gulli betri. Komum því gullinu okkar til þeirra sem geta gefið okkur betri heilsu.

Björk Vilhelmsdóttir formaður Hollvinasamtaka Heilsustofnunar NLFÍ.

 

Close Menu